Hér í danaveldi tekur allt sinn tíma, maður á alltaf að gera ráð fyrir tveggja vikna biðtíma. Ég er til dæmis búin að bíða í tæplega tvær vikur eftir internettengingu í herbergið mitt. Maður hefði nú ekki haldið að þetta tæki svona langan tíma, það er ekki eins og verið sé að leggja kapalinn hingað inn, nei það þarf bara að senda mér einhvern “startpakka” og þá má ég fara á netið. Sem sagt bara lykilorðin, hvað þarf það að taka langann tíma? Það er eins gott að það verði svo til friðs eftir alla þessa bið.
Þó að langt sé liðið á árið langar mig að minnast gamla ársins í nokkrum orðum.
Árið byrjaði á Íslandi þar sem við hjónakornin höfðum eytt jólafríinu. Ekki byrjaði það skemmtilega því að í byrjun árs lést Ingólfur eldri 87 ára að aldri eftir erfið veikindi.
Við Ingó héldum til Kaupmannahafnar og settumst að í íbúð þeirra Lars og Julie sem voru í heimsreisu og voru svo góð að leigja okkur íbúðina sína á meðan. Íbúðin er staðsett á Sønderboulevard og fyrir þá sem ekki vita er þessi gata samsíða Istedgade. Það var alveg fullt af skemmtilega furðulegu fólki sem var þarna í kring t.d. Bleik hærði (hár og skegg) maðurinn í pelsinum, konan með hreiður hárið og alskeggið og maðurinn með einahárið.
Ingó var að vinna á fullu í BA ritgerðinni og ég fór að vinna hjá ISS við ræstingar.... ekki það skemmtilegasta.
Janúar aðhaldið fór eitthvað út um þúfur því að mánuðurinn fór í það að kveðja Þjóðverjanna, of mikið drukkið og borðað. Já svo átti Ingó 25 ára afmæli og þá var haldin veisla.
Í febrúar og mars var mikið um hygg og róleg heit þar sem janúar hafði verið partí út í eitt. Skipti um vinnu og fór að vinna hjá póstinum og líkaði bara ekki svo illa, fólkið skemmtilega furðulegt og mikil hreyfing fylgdi pakkanum.
Tókum Ben (breski fóstursonurinn) upp á arma okkar og gáfum að borða, held að hann hefði horfið ef okkar hefði ekki notið við.
Um páskana fórum við til Tyrklands þar sem ég brann svo svakalega að það sjást enn för ef vel er gáð. Í maí fékk Ingó að vita að hans biði staða sendiherra í Sviss um hálfs árs skeið og þá var bara fyrir mig að vita hvað ég ætti að fara að gera. Var ekki mjög bjartsýn um skólavist í Danmörkinni og var farin að skoða það að reyna við eitthvað í HÍ en ég var alveg tilbúin að fara að læra eitthvað gáfulegt.
Mánuðirnir flækjast einhvern vegin fyrir mér í minningunni en þetta hálfa ár í Köben var barasta eitt það frábærasta sem ég hef upplifað.
Í júní fluttumst við svo til Íslands þar sem við unnum eins og fávitar til að safna fyrir væntanlegum utanlandsferðum komandi árs. Ég vann til skiptis í Hraðbúðinni og hjá Héraðsverk, þetta var sumar afleysinga og ég held að ég geri þetta ekki aftur. Hraðbúðin hefur verið afskrifuð af listanum (sérstaklega af því að ég fékk ekki jólagjöf frá kaupfélaginu). Ingó fór á spena ríkisins og vann hjá sýslumanni.
Það er alveg rosalega erfitt að flytja svona inn til pabba og mömmu (já og tengdó) reyndar er það einstaklega hagkvæmt.
Benni og Hrefna giftu sig þann 10.júní og svo október tilkynntu þau um komu erfingja í júní. Allt að gerast.
Unnur amma hans Ingós lést þann 17. júní eftir erfið veikindi. Erfitt fyrir fjölskylduna að missa þau bæði á svona skömmum tíma.
Sumarið einkenndist sem sagt af vinnu og hjólreiðum þar sem ég hafði ekki bíl til afnota fékk ég lánað hjólið hans Jóa og hjólaði í vinnuna bæði frá Þrándarstöðum og í Egilsstaði og svo frá Valþjófsstað og inn í búðir héraðsverks, ótrúlega heppin með veður. Fólk taldi mig ekki heila á geði að hjóla svona en hvað get ég sagt.
Fúsi og Guðveig tilkynntu um komu erfingja í maí 2007 og settu svo upp hringa um jólin þannig að það er mikið að gerast í báðum mínum fjölskyldum.
Jólin einkenndust af mikilli afslöppun og áti eins og venjulega, Þorgerður fór á kostum í framkvæmdargleði. Jólaveislan var haldin heima að þessu sinni og fór alveg einstaklega vel og fallega fram, fólk var í sínu besta skapi og bara engin leiðindi.
Áramótunum eyddi ég á Valþjófsstað og það var mikið étið og spilað, klukkunum svo hringt en engum flugeldum skotið upp.
En núna er ég bara ein í Danaveldinu og nú er bara að duga eða drepast. Lífstílnum breitt og námið skal tekið föstum tökum. Takk fyrir árið sem leið og vona að hamingjan verði ykkur hlið holl á þessu ári ;)
Já og eitt enn
Guðbjörg og Hansi eignuðust þennan líka sæta strák þann 19 janúar og bara Til hamingju með drenginn ;)
mánudagur, janúar 22, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli